Bloggaðu baby bloggaðu mig til himna og smá æla:

Jæja maður er mættur aftur. Nú hef ég gefið upp á bátinn í bili allar tilraunir til að halda úti bloggi á heimasíðusvæðinu mínu. Ég ætla að beina orku minni annað og láta fagmenn sjá um þetta. Nú er ég búinn að sitja heima í fríi í tvo daga og hef það fínt hið sama verður ekki sagt um 4/5 hluta fjölskyldunnar eða 80% ef við spáum ekki í þyngdarhlutföllum :o). Þau liggja öll í ælupest, en Dísa og Alexander eru að braggast. Sólrún hinsvegar er orðin verulega slöpp og varð að fara heim úr vinnunni áðan (þri. 12. okt). Matthías liggur nú og sefur. Hann er búinn að vera nett pirraður og greyjið hreinlega veit ekki af hverju honum líður svona og veit ennþá síður hvað hann vill. Nú sem sagt liggur hann með tuskubeljuna sína (Kusuna) og sefur.

Síðasti mánuður, próf og óhapp í umferðinni:

Síðasti mánuður hefur verið nokkuð strembinn svo ekki sé meira sagt. Ég tók fjóra intensive kúrsa: Rekstrarfræði, markaðsfræði, skipulag og stjórnun (organization and strategy) og svo samskiptafræði (communication theory). Allt verulega skemmtileg fög en námsefnið var ansi mikið og ég myndi skjóta á að við höfum farið yfir ca. 1500-2000 blaðsíður af texta. Mér gekk vel í markaðsfræðinni, enda hefur það oft verið ofarlega í huga mér. Hin þrjú voru aðeins meira mál. Í þremur af þessum fögum átti að skila lokaverkefnum eða ritgerðum og ég er sérstaklega stoltur af tveimur þar sem ég markaðssetti loksins fatasprey hugmyndina mína og svo skrifaði ég í samskiptafræðinni um vald fjölmiðla í dag og dró þar inn texta frá Rage against the machine af fyrstu plötunni þeirra. Kennara mínum leist svo vel á þessa tengingu við Rage að hún bað um að fá að nota þessa hugmynd í kennslu. Maður er nú bara soldið stoltur sko :)
Rekstrarfræðin gekk ekki eins vel, enda var kennslan satt best að segja ekki góð og maður er búinn að gleyma allri diffrun og þess háttar línulegri algebru. Oft talaði kennaragreyjið fyrir daufum eyrum 14 nemenda með megnið af sínum grunni úr heimspekideildum hér og þar um heiminn. En við náðum áttum og níum og tíum og allir náðu prófinu. Við fengum 20 spurningar með okkur heim og drógum svo eina í prófinu. Ég var svo lukkulegur að draga efni sem ég kunni. Það sama gerðist í samskiptaprófinu þar dró ég efni sem ég kunni. Einstaklega heppinn gaur.

En sem sagt allt fór vel og ég náði öllu munnlegu prófunum og er bara frekar sæll með þetta sérstaklega þar sem allt fór fram á dönsku. Ég talaði dönsku í tveimur af þessum fjóru munnlegu prófum þannig að þetta er allt að koma.

Viku fyrir prófin varð ég fyrir því óláni að dúndra á bíl á leiðinni í skólann. Ég var að hjóla yfir gatnamót í grenjandi rigningu og hreinlega sá ekki bíl sem kom á móti og ætlaði að beygja. Ég greip í bremsurnar en vegna bleytu þá bara hreinlega virkuðu þær ekki og ég lenti á bílnum og þetta var nú bara nokkuð vont. Ég skarst á litla fingri vinstri handar og það blæddi ótrúlega mikið. Þarna stóð ég og hélt um puttann með karlgreyjið sem átti bílinn kom og vildi helst keyra mig upp á slysó. Ég mátti ekki til þess hugsa. Ég var of upptekinn af þeirri hugsun að ég væri að fara að missa af tíma í rekstrarfræði. Alla vegana stóð ég þarna og hélt um puttann meðan karlinn taldi upp á 80 á dönsku og sagði mér að halda fast um sárið svo það myndi minnka blæðingin. Ótrúlegt hvað getur blætt úr litlu sári. Karlinn, Fridrik, spurði mig enn og aftur hvort að ég væri í lagi og ég sagði enn og aftur fyrirgefðu við karlinn en honum var nokk sama um þessa meters rispu sem ég hafði búið til á bílinn hans. En ég kom mér í skólann og sem betur fer var í lagi með hjólið og mig og ekki síst fartölvuna sem ég var með á mér.

Jæja, þetta var allt í bili og ég mun skrifa meira í kvöld eða á morgun.

kv.

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur